Varúð!!! Hreingerningarpistill….

Ég elska rútínu!! Rútína er frábær, hún tryggir að allt sem þarf að gerast, gerist. Þegar ég hef góða rútínu þýðir það að ég þarf ekki að hugsa um hvað ég eigi/þurfi að geta og krakkarnir mínir eru vanir því að á ákveðnum tímum dags er mamma að þrífa en ekki að leika, svo þau finna sér yfirleitt eitthvað annað að gera en suða í mér 😃

Fyrir nokkrum árum kynntist ég aðferðum Flylady sem byggja mikið upp á rútínum og er ætlað að hjálpa til við að halda heimilinu hreinu og passa að öll venjubundin heimilisstörf gangi sinn vanagang og að við séum ekki að byggja upp vandamál með frestunaráráttu (hún er meira að segja með einn vikudag helgaðan anti-frestun 😉 ).

Þegar mér tekst að fylgja rútínu Flylady þá hef ég tekið eftir því að heimilið er hreinna, ég er skipulagðari og okkur fjölskyldunni líður öllum betur. En þótt ég hafi stundum ekki tíma til að fylgja öllu því sem ég veit að ég ætti eða þyrfti að gera, þá eru nokkur grundvallaratriði sem hafa haldist eins og tryggja að þótt heimilið sé ekki alltaf eins hreint og hægt er, þá verður það aldrei “of” skítugt og óreiðusamt.

Þau atriði sem er mikilvægast að sinna á mínu heimili eru:

  • Daglegur þvottahringur – ef ég set í þvottavél á hverjum degi, þá lendum við aldrei í því að öll fötin okkar verði skítug. Þvottahringur samanstendur af því að taka þurr föt af snúrunum og úr þurrkaranum, taka úr þvottavélinni, setja í þvottavél og brjóta saman hreina þvottinn og ganga frá honum. Hringurinn tekur yfirleitt ekki nema 15-20 mínútur daglega hjá mér og tryggir að óhreinatauskörfurnar mínar flæða aldrei yfir.
  • Gera matseðil fyrir vikuna og fara í vikulega innkaupaferð. Við þurfum aldrei að hugsa um hvað verður í matinn það kvöldið og vikulegu innkaupin tryggja að ég þarf aldrei að skreppa í búðina kl. 17 með þreytt og pirruð börn (við verslum fyrir hádegi á laugardögum).
  • Korters tiltekt tvisvar á dag. Þetta skiptir ótrúlega miklu máli, engin hreingerning hér og engin smáatriði. Ég byrja á stofunni og fer með öll leikföng inn í barnaherbergið og tek svo allt drasl af borðum og fer með á viðeigandi staði. Þegar stofan er búin fer ég frá herbergi til herbergis og geng frá öllu sem er ekki á sínum samastað þar til korterið er búið eða ég nenni ekki meiru
  • Laugardagsþrifin… á laugardögum er heimilið þrifið, ég myndi vilja segja að það sé þrifið hátt og lágt, en svo ég sé nú fullkomlega hreinskilin þá samanstanda laugardagsþrifin stundum einfaldlega af því að ryksuga gólfin. 🙈 En á “venjulegum laugardegi” er ryksugað, skúrað (1-2 í mánuði), þurrkað af, skipt um á rúmum (ca mánaðarlega), klósettið þrifið, baðspegillinn og baðborðið þrifið og eldhúsið þrifið almennilega ásamt tiltekt á íbúðinni. Mér finnst best að senda manninn minn út af heimilinu með börnin og rumpa þessu af á 1-2 klst með góða tónlist í eyrunum 😆

Þegar þessum nokkrum atriðum er sinnt helst geðheilsan mín í lagi, því við höfum tekið eftir því að ef heimilið er hreint líður okkur öllum mun betur. 🤔

Ps. Um leið og ég hef efni á því mun ég klárlega borga eitthverjum öðrum fyrir að sjá um þrifin fyrir mig!

Ég er tveggja barna móðir, Ég er einkaþjálfari og sjúkraliðanemi, mín helstu áhugamál eru hreyfing, ljósmyndun og eldamennska !