Ef þið voruð ekki búin að kveikja á því þá er bóndadagurinn núna á föstudaginn!! Svo þið sem ætlið að plana eitthvað sérstakt fyrir bóndann á heimilinu þá koma hérna nokkrar hugmyndir, sumar kosta pening, aðrar ekki, því við vitum það öllað það er hægt að gleðja einhvern án þess að eyða peningi 🙂

Fela uppáhaldsnammið hans í hanskahólfinu

Einfalt, kjánalegt og að mínu mati, skemmtilegt. Þú einfaldlega kaupir eitthvað sem honum finnst gott og getur geymst utan kælis, laumar því í hanskahólfið á bílnum (virkar reyndar bara ef bíllinn er hjá honum) og sendir honum svo skemmtileg skilaboð einhvern tíman um daginn um að þú hafir skilið eftir gjöf til hans í bílnum.

Skeggsnyrting

Miðað við hversu ótrúlega margir íslenskir karlmenn eru með skegg í dag, þá ætti þetta að geta nýst þeim allnokkrum. Pantar tíma fyrir hann í skeggsnyrtingu, eða kaupir bara gjafabréf. Ekki verra ef snyrtingunni fylgja skeggolíur og vax og álíka dúllerí.

Heimadekur

Er ekki tilvalið að láta renna í freyðibað fyrir kallinn þannig að hann geti látið þreytuna líða vel úr eftir vinnudaginn? Elda jafnvel uppáhalds matinn hans og gefa honum frí frá uppvaskinu. Enda kvöldið á því að horfa saman á mynd að vali kallsins í vod-inu og njóta þess að vera saman.

Falleg gjöf

Nýr tölvuleikur, nýjar nærbuxur, bjór, þorrabakki, bluetooth hátalari, veiðigræjur, hlaupaskór, ljós á hjólið, gólfhanski… hvað sem þinn maður fílar.

Baka köku

Klassíkin úr mínu uppeldi. Á bóndadag var alltaf bökuð súkkulaðikaka “fyrir pabba” sem við borðuðum öll eftir kvöldmatinn. Virkar ekki eins vel fyrir mig núna þar sem eiginmaður er enginn kökukarl og eina kakan sem honum finnst eitthvað varið í… er kaka sem ég hef ekki enn lært að baka.

Falleg skilaboð

Tekur eina blokk af post-it miðum og skilur eftir litla sæta miða út um allt… á ísskápinn, bíllyklana, baðspegilinn, ofan á klósettsetuna, á seðlaveskið o.s.frv. þarf ekki að vera flókið 😉

 

Hádegismatur

Pikkar kallinn upp í hádeginu og þið farið saman á einhvern góðan stað til að borða hádegismat.

Umhyggja

Síðast en alls ekki síst…. koss, knús og að fá að sofa út daginn eftir!!

 

Ég er tveggja barna móðir, Ég er einkaþjálfari og sjúkraliðanemi, mín helstu áhugamál eru hreyfing, ljósmyndun og eldamennska !