Eitt af mest lýsandi orðunum fyrir mig er skipulagsperri. Ég er rosalega hrifin af alls kyns listum og er gjörn á að setja flest allt upp í excel. Þess vegna er ég að dýrka nýjasta æðið sem gengur yfir landann, skipulagsdagbækur. Ég leyfi mér að fullyrða að við höfum aldrei haft eins mikið úrval af dagbókum í boði hér á Íslandi og svo er líka algengara að fólk kaupi bækurnar sérhannaðar fyrir sig að utan. Ég gaf mömmu minni eina slíka bók í jólagjöf í ár og dauðlangar í svoleiðis sjálf. Ég ætla því að fara hérna yfir helstu bækurnar sem eru í boði í dag.

Munum

Munum er ein af nýju íslensku bókunum sem eru í boði. Áherslan í bókinni er á markmiðasetningu og er hægt að skrá niður mánaðarleg markmið ásamt markmiðum vikunnar og dagsins. Hún kemur m.a. í skemmtilegum gulum lit og mun örugglega ekki týnast í veskinu! Bókin er með viku á hverri opnu og fæst m.a. í öllum helstu bókabúðum landsins. Verð 3.990 kr.

Lífsstílsdagbókin

Þessi dagbók er sérstaklega hönnuð fyrir okkur ræktardurgana og er sér pláss til að skrifa niður æfingar á hverjum degi ásamt matardagbók og plani dagsins. Bókin er með einn dag á hverri síðu og hver vika hefst með síðu til að skrifa niður markmið vikunnar, eitthvað um andlega heilsu og matseðil vikunnar. Hver mánuður hefst svo með plássi til að skrifa niður mælingar. Hægt er að panta bókina í gegnum lifsstilsdagbokin@gmail.com og hjá leanbody.is og í verslun Lean body, Bæjarhrauni 2 í hafnarfirði, en hún er uppseld en væntanleg aftur innan skamms. Verð 4.500 kr.

   

Úlfur

Einföld dagbók þar sem mikið er lagt upp úr hönnuninni. Hvatningarorð eru í kaflabyrjun og hönnun dagbókarinnar er minimalisk og falleg. Bókin er sett upp með viku á hverri opnu og er fáanleg í Litlu hönnunarbúðinni. Verð 2.990 kr.

Erin Condren Lifeplanner

Fallegar bækur þar sem hægt er að velja á milli mismunandi forsíðna og merkja hana með nafni. Hægt er að velja á milli tveggja uppsetninga og tveggja litaþema. Bókin er með viku á hverri opnu. Hægt er að kaupa fjölda af aukahlutum á heimasíðunni auk þess sem hægt er að finna urmul af límmiðum til að nota í dagbókina t.d. af etsy.com. Bókin er fáanleg á heimasíðunni www.erincondren.com og kostar $55.

Happy planner

Happy planner er með sérstaka innbindingu sem er byggð á diskum, svo það er hægt að bæta síðum inn í bókina eftir hentugleika og gera hana enn persónulegri. Hægt er að velja um forsíðu en ekki er hægt eins mikið val á innvolsi og í erin condren bókunum. Mikið er til af límmiðum og öðrum fylgihlutum fyrir þessar bækur. Hægt er að fá þær á heimasíðunni www.meandmybigideas.com og kostar bókin í a5 stærð á bilinu $24,95 til $29,95, en einnig er hægt að fá a4 stærð og miniútgáfu.

Personal planner

Personal planner er ennþá sveigjanlegri og er hægt að velja um ýmsa módúla eins og ramma fyrir líkamsrækt, daggæslu, verkefnalista, matseðil o.fl. Einnig er hægt að velja hvort dagahólfin séu tímasett eða línustrikuð að hluta eða öllu leyti. Hægt er að panta dagbókina af heimasíðunni www.mypersonalplanner.com og kostar a5 stærðin €28,9 en hægt er að velja um ýmsar stærðir.

Þetta eru bara nokkrir af valmöguleikunum sem eru í boði en ljóst er að allir ættu að geta fundið eitthvað sem hentar sínum lífsstíl og áherslum, hvort sem hugsunin er að taka heilsuna í nefið, ná öllum markmiðunum eða einfaldlega passa að gleyma ekki mikilvægum stefnumótum.

Þar til næst,

Tinna

 

Ég er tveggja barna móðir, Ég er einkaþjálfari og sjúkraliðanemi, mín helstu áhugamál eru hreyfing, ljósmyndun og eldamennska !