Hvernig veit ég að við erum á sömu blaðsíðu?

Ég hef átt í mörgum vinasamböndum yfir ævina, mislöng, stundum vel heppnuðum og stundum bara ekki. En það er bara lífið, ekki satt?

 

                                   Félagsfælin eða kannski bara feimin?

 

Frá því að ég byrjaði í áttunda bekk hef ég verið félagsfælin og ekki náð að tengja við alla sem ég hitti. Í mörg ár hélt ég því fram að það væri mér að kenna, að það væri bara eitthvað að mér. Ég var ekki alveg að skilja hvers vegna það leit út að öllum var að ganga betur en mér í því að eignast vini og halda vinasambandinu gangandi. Ég átti nokkrar góðar vinkonur á þeim tíma sem mér þótti ótrúlega vænt um og þykir auðvitað ennþá vænt um í dag þó samskiptin okkar séu vægast sagt dauð. Trúið mér þið komuð á réttum tíma og skiptuð mig miklu máli á meðan ég var að þroskast og finna sjálfa mig, þið spiluðuð stóran part í því hver ég er í dag. 

Það mætti segja að ég og einmannaleiki þekkjumst mjög vel, kannski þekkja það ekki margar konur vegna góðra og sterkra vinkonuhópa síðan úr gaggó eða menntaskólagöngu. Ég öfunda þær konur en á sama tíma er ég mjög þakklát, það hefur nefnilega aldrei verið  jafn auðvelt fyrir mig að geta vandað valið vel þegar ég er að kynnast nýju fólki og í dag.

 

Hvernig lærði ég að kynnast nýju fólki og vanda valið?

Upp úr 19 ára aldri byrjaði ég að taka til í vinunum mínum eða hugsa hvort þessir ákveðnu vinir ættu með mér samleið í lífinu og væru að gefa mér sömu jákvæðu orku sem ég hafði eytt í þá til baka. Nokkra sleit ég samskiptum við og aðra ekki. Eftir að þeim kafla í lífi lauk hafði ég öðlast nýja sýn á félagslífið mitt, ég hef nefnilega lært að segja ”stopp, hingað og ekki lengra” þegar það kom að því að umgangast nýtt spennandi fólk. Frá því ég tók út þá vini sem ollu mér vanlíðan og voru einfaldlega bara ekki góðir vinir þá hef ég lært að segja nei. Þetta hljómar kannski skringilega en ég er hamingjusamari og ég er einfaldlega bara sterkari og sjálfstæðari manneskja fyrir vikið. Vegna þess að í dag þegar ég hitti nýtt fólk er ég varkár, þolinmóð og jarðtengdari.

 

‘Bondið” og tilfinningin er minn besti vinur

Ef sama tenging er ekki til staðar hjá okkur þá vitum við að þetta er einfaldlega ekki að fara að ganga nema með erfiðleikum og óþarfa strembi. Ég gekk í gegnum þannig vinasambönd áður ég lokaði á þau. Þessi sambönd voru mér  erfið, tóku mikið á geðheilsuna ,leiðinleg mest megnis af tímanum og einfaldlega bara óþarfa eyðsla í orku sem gat farið í annað fólk. Þessi sambönd sem vantaði ”bondið” og tenginguna eru þau sambönd sem ganga aldrei án erfiðleika og leiðinda. Allavega af minni reynslu. 

 

Að vera illa brennd/ur af toxic vinasamböndum 

Eitt er þó vert að nefna af þeirri reynslu frá slæmum vinasamböndum eru sárin, framkoman og meðvirknin sem myndast eftir á. Kannski er ég bara svona viðkvæm en félagslega meðvirknin mín mótaðist á meðan þessum samböndum stóð. Ég einfaldlega lærði að lifa eingöngu fyrir annað fólk, alveg sama hvort það kom vel eða illa fram við mig. Í dag er ég ennþá að venja mig af því að segja ”nei” og afþakka boð frá þeim sem ég vil ekki eyða orku og tíma í, ég nefnilega fékk alltaf að heyra það á einn eða annan hátt ef ég stóðst ekki væntingarnar hjá þeim vinum sem ég taldi ekki hafa góð áhrif á mig. Ennþá daginn í dag á ég erfitt með að kynnast nýju fólki vegna þess og á ennþá erfitt með að tengjast fólki sem hefur kannski verið svolítið stjórnsamt áður fyrr eða verið með svipaðan persónuleika og þeir vinir mínir sem voru mér kærir áður fyrr. 

 

Líður mér vel í dag?

Já mér líður talsvert betur og sjálfsöryggið er mun betra en það var áður fyrr. Allt batnar með tímanum og ég styrkist ennþá meira með hverjum deginum sem líður.