Í þessari færslu mun ég fjalla um hugmynd að dagsferð um Suðurlandið fyrir þá sem hafa gaman af dagsferðum og sælkeramat. Hugmyndirnar miðast við dagsferð en það er auðvitað hægt að fara eftir eigin höfði og pússla þessu saman á eigin hátt.

  1. Nesjavallaleiðin, Þingvellir.

Þessi partur af Þingvöllum er vanmetinn hjá bæði Íslendingum og ferðamönnum en vegurinn liggur við skóga og sumarbústaðahverfin sem eru við vatnið þegar leiðin liggur að Nesjavöllum. Ég einfaldlega dýrka það að rúnta þar í öllum árstíðum en myndin sem fylgir með var tekin síðast í Janúar síðastliðinn.

2. Gamla Laugin/ Secret Lagoon Hot Spring

Gamla laugin á Flúðum hefur ávallt verið í uppáhaldi hjá mér á sumrin þegar ég vil kíkja aðeins út úr Reykjavík í smá pásu frá borgarlífinu. Mér þykir lang best að kíkja í laugina seinnipartinn eða eftir kl 19:00 á kvöldin. Laugin er einstök vegna kyrrðar og fallegrar náttúru.

3. Efstidalur 2

Hótel, sveitabær, ísbúð og veitingastaður. Hvað er hægt að biðja um meira?

Efstidalur 2 er án efa best geymda leyndarmál sem Suðurlandið hefur upp á að bjóða en þangað geri ég mér sérferð á hverju sumri fyrir matinn. Það sem gerir staðinn svo einstakann eru gæðin og umhverfið. Öll hráefnin koma úr umhverfinu og allt er gert á staðnum. Ísinn þeirra er einnig heimagerður og bragðast mjög vel. Fyrirtækið er lítið fjölskyldufyrirtæki sem gerir stemminguna enn betri.

4. Landmannalaugar

Náttúruperlan sem leynir á sér og endar aldrei!

Fyrir þá sem hafa þolinmæðina í góðan rúnt er þetta fullkomna lausnin að leiðarlokum á Sunnudagsrúntinum. Í Landmannalaugum er hægt að fara í endalausar fjallgöngur og skoðunarferðir en Náttúruperlan byggist á náttúrufegurð og litríku umhverfi. Svo er alltaf svo huggulegt að enda góðan göngutúr í heitu náttúrulaugini sem Landmannalaugar hafa upp á að bjóða.

Ég vona að þessar hugmyndir muni gagnast ykkur í sumarfríinu

*þessi færsla er ekki unnin í samstarfi við neina eftirfarandi staði/fyrirtæki*

Leave a Reply

Your email address will not be published.