Ég var rétt að verða tvítug þegar ég eignaðist mitt fyrsta barn, gullfallegann og fullkominn lítinn strák, hann Úlfar Hrafn. Hann var bara eins og öll börn sem ég þekkti, eða svo hélt ég. Hann fékk smá gulu þegar hann fæddist og ég þurfti að vekja hann á tveggja tíma fresti til að gefa honum, því hann var of latur vegna gulunar. Hann festist í þessari rútinu fyrstu sex vikurnar, og svaf ég nánast ekkert. Ég var komin með bauga niður á kinnar og vissi varla lengur hvað ég hét. Það var þá sem systir mín tekur hann, sendir mig heim og segir mér að fara að sofa, og hún ætli að passa hann yfir nóttina. Í fyrsta sinn í langan tíma, fékk ég almennilegan svefn. Ástandið batnaði en Úlfar Hrafn átti alltaf erfitt með svefn.

1918011_1120300283985_4086480_n
1918011_1120293923826_441106_n
1918011_1120300163982_503419_n

 Ég á tvö systkinabörn sem eru fædd á sama ári og Úlfar Hrafn, nema þau voru fædd sex mánuðum síðar. Úlfar Hrafn var alltaf aðeins öðruvísi en þau, en ég pældi ekkert sérstaklega í því á þeim tíma. Hann talaði ekki eins og þau og lék sér öðruvísi. Hann lamdi frá sér og hegðaði sér óvenjulega í kringum önnur börn. Hann hagaði sér oft illa og ég þurfti endalaust að vera að skamma hann, tala hann til, setja hann í skammakrók og öll þau ráð ég fann til að aga hann. Mamma mín spurði mig einu sinni rétt eftir eitt “kastið” hans hvort ég væri ekki orðin þreytt. Ég brotnaði niður því jú, ég var orðin svo andlega þreytt og fannst ég glötuð móðir.

Þegar Úlfar Hrafn var hjá dagmömmu tók ég eftir að hann var aldrei að leika sér í kringum hin börnin, hann var alltaf að leika sér á sama stað, með bíla og alltaf einn. Í leikskóla var hann eins, hann átti ekkert sameiginlegt við hin börnin. Leikskólinn talaði við mig og spurði mig hvort mér fyndist hann einhvað öðrvísi en aðrir, því þau höfðu sömu áhyggjur af honum og ég. Leikskólinn mælti með því að bíða þar til að hann færi í tveggja og hálfs árs skoðun með að gera einhvað því það væri betra að allt færi í gegnum heilsugæsluna en í gegnum þau, ef einhvað væri að.

10398434_142535293065_247092_n

Í tveggja og hálfs árs skoðun tók hjúkkan strax eftir að ekki var allt með felldu hjá þessum litla strák. Hann vildi ekki láta mæla hæð sína, láta vigta sig, gera neitt sem hún bað um og alls ekki tala við hana. Hún sendi hann áfram til talmeinafræðings sem fann strax fyrir spennu í honum og vissi að það þurfti að skoða hann betur.

Úlfar Hrafn var sendur á Þroska og Hegðunarstöðina. Þar fóru fram allskonar próf og okkur var sagt að hann skriði rétt yfir línuna inn á einhverfurófið. Frá Þroska og Hegðunarstöðinni var hann sendur á Greiningarstöðina. En fyrst tóku við nokkrir mánuðir af bið, erfiðri bið.

10429807_10204054089048798_602921263917198717_n

Loks kom kallið, hann fékk tíma og fór í fleiri próf. Við foreldrarnir fórum í viðtal og svörðuðum allskonar spurningum. Í lokin á öllu þessu ferli fer maður á skilafund.

Ég settist í stól inni á einni skrifstofunni á Greiningarstöðinni og beið eftir niðurstöðunum. Konan sem sá um skilafundinn kemur sér fyrir og segir okkur að hann sé með dæmigerða einhverfu. Mig grunaði aldrei að hann yrði greindur svona hátt á skalanum þar sem að hann rétt fór yfir línuna fyrst. En mikið sem mér létti að fá þessa greiningu. Mér létti því ég fékk staðfestingu á því hvað væri að hrjá barnið mitt, afhverju hann væri svona öðrvísi en aðrir og fékk staðfestingu á að ég væri ekki hræðileg móðir.

20017406_504463363233403_4748403357497751732_o

Í fyrsta sinn í rúm þrjú ár gat ég andað léttar. Ég var ekki endalaust á taugum og í stresskasti yfir næstu baráttu við hegðun hans. Ég vissi hvað og hvernig ég átti að bregðast við og hvernig ég átti að hjálpa honum.

Það er mikil og erfið vinna að eiga einhverft barn. En með greiningunni varð allt svo miklu léttara.