Jólin eru hátíð barnana… Það var allavegana alltaf sagt heima hjá mér. Að labba um hverfið og skoða jólaljósin, setjast út og fá sér heitt kakó, hitta ættingja og vini og eiga góðar stundir saman

Ég elska jólin. Ég elska tónlistina, tilfinninguna og samveruna sem jólin gefa manni. Það er eitthvað við samveruna yfir jólahátíðirnar sem er merkilegri og meiri en í venjulegu sunnudagskaffi eða í afmælum.
Já það er bara eitthvað við þessa seinustu stóru hátíð ársins þar sem við fögnum, í heila viku, lokum ársins og hlökkum til nýs árs og nýrra tíma.

Þegar við Konni byrjuðum formlega að búa 2013 fluttum við í litla 2ja herbergja kjallaraíbúð og þar héldum við fyrstu jólin okkar 4 saman. Ég, Konni, Gulli og Albert.
Það var ekki pláss fyrir jólatré, og eginlega ekki fyrir neitt jóladót heldur en við Gulli föndruðum músastiga í loftið, hengdum upp heimagert skraut úr Froot Loops og máluðum alla glugga í litlu íbúðinni okkar með jólamyndum. Jólatréð var svo málað á striga og límdir Súkkulaðimolar á og Playmo jólasveinninn bjó í piparkökuhúsinu uppá ísskáp.

530491_10202877968817058_155164212_n
1476444_10202878121260869_946580127_n
1471322_10202975825023402_881750655_n
1487338_10203023972467058_1754476835_n

Næstu jól vorum við komin í stærri íbúð og þá var sko farin að spá í jólatré og hvernig skraut við ætluðum að hafa á því. Með 2 litla stráka, og Konna, var mjög fljótlega farið að tala um bíla, traktora, ofurhetjun og teiknimyndafígúrur en við komumst fljótt að því að ef þú ætlar að hafa þannig skraut á trénu hjá þér þá kostar það þig ansi mikla peninga, alla vegana svona þegar þú ert að byrja með tómt tré, en til að brjóta ekki lítið hjörtu stakk ég upp á að við myndum perla okkar eigið jólaskraut.

5 ára gutti hafði nú ekki mikla þolinmæði í fyrirfram ákveðið perlumunstur en þið trúið því ekki hversu glaður hann var að sjá hverja fígúruna á fætur annari verða til og gleðin sem fylgdi því að skreyta jólatréð það árið, og öll eftir það, var engu lík.

Það þurfti að finna réttan stað fyrir hverja fígúru, óvinir máttu ekki vera of nálægt hvor öðrum en vinir alltaf nálægt.

Mamman fékk þó að ráða toppinum og trónir Snoopy, árið eftir voru þar geislasverð sem Gulli perlaði sjálfur. Lýstu í myrkri og allt!

Ekki mátti breyta útaf vananum og auðvitað voru gluggarnir litaðir í nýja húsinu líka!

Það hefur bæst helling í safnið okkar enda perlum við fyrir hver jól og eftir því sem menn breyta um áhugasvið breytast áheyrslurnar og hugmyndaflugið fær meir og meir að ráða.
Hversu æðislegt er það?!

Fyrir mér skiptir ‘design’ jólaskraut engu.
Það er jólaskrautið sem börnin mín gera sem ég held mest uppá.
Að fara í gegnum perluðu karlana okkar Gulla og ég man hvenær við gerðum hvern karl því það er ástæða og saga á bakvið þá alla.

Málaða “jólatréð” okkar eigum við ennþá og við hengjum það upp og límum á það nammi um hver jól.

Jólin eru hátíð barnana minna.
Þessi tími er það dásamlegasta sem ég veit og á mínu heimili er ekkert sem má skemma hann.
Ekki stress, ekki leiðindi og alls ekki óþæginleg föt sem alls ekki má subba á.

Er ekki málið að njóta jólana í allri sinni dýrð, eins og börnin okkar gera?
Hvað með það þó jólatréð sé ekki eins og klippt út úr Hús og Híbýli?
Hvað með það þó það sé ekki til sparistell og venjulegu eldhúsdiskarnir og hnífapörin séu á jólaborðinu?
Hvað með það þó það sé ekki búið að vaska allt upp þegar byrjað er að opna pakkana?

Jólin eru bara einu sinni á ári, njótum þeirra með börnunum okkar því ég kvíði þeim tíma þegar þau verða öll flutt að heiman og bara við Konni eftir að setja upp jólin. Nei hvern er ég að plata.
Ég mun bjóða börnunum mínum í jólamat á hverju ári og setja upp með þeim jólin, það er allavegana planið.