Meðan ég skrifa þetta sit ég við tölvuna með hálf sofandi, hálf grátandi barn í fanginu sem ég hef ekki mátt leggja of langt frá mér í 5 daga.
Búin að taka 4 pásur á skrifum og skipta 2x um bol.
Ég er búin að mastera þann hæfileika að skrifa með annari höndinni.

Ég á 3 börn og þau hafa öll verið kveisubörn. Mis mikið, mis lengi og mis alvarlega en alltaf tekið jafn mikið á.

Og þetta tekur á, meir en nokkurn getur grunað.
Þeir sem ekki þekkja kveisubörn eða hafa upplifað dag í lífi þess geta ekki sett sig í spor þeirra sem eru að díla við þetta á hverjum degi, og nóttu.

Þetta er eitthvað annað stig þreytu. Ég og kaffi erum bestu vinir.

Ég er að fara út með vinkonum mínum í kvöld og ég er með kvíðahnút í maganum yfir því að hringt verði í mig þar sem dóttir mín grætur úr sér augun og ekkert virkar.  Ekki af því að ég treysti ekki þeim sem verða heima mað dóttur mína heldur vegna þess að þegar henni líður illa vil ég vera hjá henni.

Að eiga kveisukríli þýðir að ég er alltaf viðbúin, undir ALLT.
Í skiptitöskunni er ég með 3 dress til vara, allt frá samfellum og sokkum í peysu og alltaf nóg af taubleyjutuskum.
Dóttir mín ælir að meðaltali 12x á dag, oftast oftar , og yfirleitt það mikið að slefsmekkir eru ekki nóg.

Að fara í bæinn getur mjög fljótt breyst í grátveislu þar sem Ástrós grætur óstjórnlega, Úlfur grætur því Ástrós grætur, Albert af því við þurfum að fara snögglega út í bíl eða jafnvel heim og ég, ég græt í hljóði og þurrka tárin áður en þau leka því ég verð að halda andliti svo ég geti útskýrt fyrir strákunum af hverju bæjarferðin endar eins og hún endar og á sama tíma reyna allt mitt besta, nota öll mín trikk, til að róa krílið mitt.

Ég hugsa oft til þess að í gamla daga grétu börn oft fyrstu 6 mánuði lífs síns og það var bara kallað kveisa og það var ekkert skoðað frekar. Þau voru kanski bara með loft, oft illt í maganum eða það sem verra var, engin augljós ástæða fyrir þessum gráti. Mæður gengu bara um gólf tímunum saman og reyndu að róa barnið sitt sem var kanski einfalldlega með mjólkuróþol, eða ofnæmi.  Vandamál sem svo auðvellt er að vinna með í dag, sem betur fer.  Ég var víst sjálf svona sem ungabarn, það var keypt rándýr þurrmjólk fyrir mig úr apóteki því ekki fekkst hún uppáskrifuð. Sem betur fer ólst þetta af mér, eins og það hefur gert hjá sonum mínum, en það er ekki alltaf sem það gerist.

Það var ljóst strax og Ástrós fór að fá ábót, þá viku gömul, að ekki væri allt með feldu. Það var sama hvort hún drakk brjóstamjólk eða þurrmjólk hún rembdist allan sólahringinn án þess að nokkuð gerðist og grét eins og stunginn grís í hvert skipti sem hún drakk. Við skiptum um þurrmjólk 2x og hún var sett á Minifom dropa til að losa loft en ástandið batnaði lítið. Næsta skref var uppáskrifuð þurrmjólk frá lækni sem við fáum senda heim að dyrum 1x í mánuði.  Hún fór að þyngjast og dafna betur, hún rembist ekki eins og sefur mikið betur en kveisan er enn til staðar.
Suma daga grætur hún út í eitt, lítið annað en mömmufang sem róar hana og virðist einfalldlega ekki geta drukkið því hún byrjar að gráta eftir hvern sopa en er samt svo svöng að hún reynir og reynir að drekka.

Stundum skil ég ekki hvaðan þessar ofur krúttlegu fellingar koma því hún virðist ekki drekka neitt.

Við eigum tíma hjá næringarfræðingi eftir mánuð og við höfum þegar hitt hana einu sinni og gert plan. Við erum búnar að heimsækja ofnæmislækni og meltingafæralækni en fyrir utan alveg rosalega næmni fyrir kúamjólkurpróteini er engin önnur skýring á þessari kveisu og það er held ég það versta við þetta allt saman, þegar svörin eru engin. Þegar eina svarið sem þú færð er: ,, haltu bara áfram því sem þú ert að gera, þetta rennur sitt skeið”

Ég veit það, ég veit þetta rennur sitt skeið en það er erfitt að bíða.

Ég veit líka að ungabörn gráta, ég veit að þau gráta án þess að augljós ástæða sé til fyrir því en trúið mér Það er munur þarna á og við sem þekkjum kveisuna þekkjum þann mun

 

Kv. Ofurþreytta mamman sem reynir bara að bíða róleg