Ég hef verið að prófa mig áfram í mexíkó lasagna síðustu mánuði þar sem þetta vekur mikla lukku á mínu heimili. Hérna er uppskriftin sem mér finnst best.

Innihald:
Kjúklingur
Nýrnabaunir
Maís
Paprika
Rauðlaukur
Tortilla pönnukökur
Taco sósa
Nachos sósa
Svart doritos
Mexíkóostur
Rifinn ostur
Krydd

Aðferð:
Ég sker kjúklinginn í bita og steiki á pönnu, krydda hann vel með burrito kryddi frá santa maria.  Síðan bæti ég paprikunni og lauknum út á og steiki þar til það fer að mýkjast.  Þá bæti ég nýrnabaununum og maísnum útá.  Þar á eftir taco sósunni og leyfi þessu öllu að malla á pönnunni í smá tíma.  Ég raða síðan pönnukökunum neðst í eldfast mót, smá doritos ofan á, rifnum mexikóost, nachos sósu og að lokum tacoblöndunni af pönnunni.  Endurtek síðan 2-3 hæðir og set að lokum rifinn ost ofan á, skelli þessu inn í ofn á 180 gráður þar til osturinn er bráðinn.
Lasanga er síðan borið fram með doritos, restinni af nachos sósunni og sýrðum rjóma.

Þessi uppskrift var í algjöru uppáhaldi og fengu allir sér tvisvar ef ekki þrisvar á diskinn.