Á fyrsta árinu hennar Júlíu Rósar fór hún á þrjú sundnámskeið og var hún orðin mjög örugg í vatni.  Eftir þessi þrjú  námskeið tókum við pásu og vorum við ekki nógu dugleg að fara með hana í sund, við það þróaði hún með sér mikið óöryggi í vatni.  Núna í sumar höfum við verið að vinna í því að auka öruggið aftur.  Ég hef verið dugleg að fara með hana í sund en einnig höfum við verið þónokkuð í sumarbústöðum og þar fórum við oft í heita pottinn.
Ég reyni að velja barnvænar sundlaugar.  Þetta eru þær sundlaugar sem ég hef farið í og þykir henta vel að fara með börn í .

Salalaug í Kópavogi.
Búið hefur verið til skemmtilegt leiksvæði í setlauginni þar.  Kominn er kastali með tveimur misstórum rennibrautum, auk þess eru þrjú skemmtileg leikföng sem sprauta vatni, þ.á.m. slanga og skjaldbaka. Úti er líka stór rennibraut fyrir eldri börnin auk 25 m sundlaug þar sem í hluta geta börnin leikið sér.  Einnig er innilaug.

Kópavogslaug
Kópavogslaugin er ein af mínum uppáhalds sundlaugum en ég er uppalin í Kópavogi og því fór ég oft í hana.  Hún er þó allt önnur en hún var þegar ég var lítil.  Í dag er búið að bæta við tveimur rennibrautum og eru því alls þrjár rennibrautir sem eru tengdar í sömu sundlaugina. Gula rennibrautin er minni og hvíta og bláa síðan töluvert stærri.  Það sem heillar mig mest verandi með tveggja ára gamla stelpu eru annarsvegar barnalaugin úti sem er fyrir yngstu börnin.  Hún er mátuleg í dýpt svo Júlía getur staðið, í henni er lítil rennibraut sem hún getur farið í sjálf, sveppur og lítil vatnssprautandi tæki.  Inni er síðan einnig lítil sundlaug þar sem foreldrar geta verið með börnin.  Hún er heit og eru lítil leikföng fyrir börnin að leika með. En einnig eru 3 misheitir pottar úti og eru tveir mátulega heitir til að vera með börn í.

Álftaneslaug
Ég hef aðeins einu sinni farið í Álftaneslaug með Júlíu Rós en þá var hún ekki orðin eins stór og hún er í dag.  Það sem heillaði mig við Álftaneslaug er stóra setlaugin, það munar svo að sundlaugar séu með setlaugar sem börn geta staðið í. Þá reynir á það að þau finni fyrir öryggi og geti gengið sjálf um.
Það sem Álftaneslaug er þó frægust fyrir er öldulaugin en hún er mjög skemmtileg.  Einnig er stór og skemmtileg rennibraut.

Vatnaveröld í Reykjanesbæ
Júlía Rós var einnig mjög lítil þegar ég fór með hana í Vatnaveröld en ég stefni á að fara með hana þangað aftur á næstu vikum.  Vatnaveröld er með frábæra inniaðstöðu fyrir börn.  Laugin er mátulega djúp svo börn geta gengið sjálf.  Í sundlauginni er stór kastali með tveimur rennibrautum í mismunandi stærðum.  Einnig eru önnur skemmtileg vatnsleikföng.

Ásvallalaug
Ég fór í fyrsta skipti í Ásvallalaug með Júlíu Rós um daginn og hún vildi ekki fara uppúr lauginni því það var svo gaman.  Inni eru tvær laugar fyrir börn, önnur en mjög grunn og alveg frábær fyrir yngri börnin þar er lítil rennibraut, vatnstæki auk fullt af leikföngum sem Júlía sat og dundaði sér með.  Stærri laugin var um metri á dýpt og þar voru boltar og þetta klassíska ,,sunddót”.  Einnig var rennibraut, labbað er upp stiga inni, rennibrautin liggur síðan út úr húsinum á einum vegg og inn aftur, maður sem samt endar inni.
Það sem heillaði mig líka mikið var að við hlið barnasundlaugarinn fyrir yngri börnin voru þrír heita pottar.  Þeir voru þannig hannaðir að hægt var að sitja í þeim og fylgjast vel með barnalauginni.  Ég tók eftir því að foreldrar sem voru með tvö börn, annað þá nógu gamalt til að gæta yngri barnsins gátu setið í heita pottinum og fylgst með börnunum, en einnig haft afskipti af börnunum því aðeins var u.þ.b 2 metrar milli laugarinnar og pottana.

Ef þið eruð á leiðinni í sund með börn mæli ég hiklaust með þessum laugum.
Ég er mjög spennt að prófa nýjar sundlaugar og hef fundið margar sem við þurfum að prófa á komandi mánuðum.