Núna fer sumarið að nálgast og getum við Bjarndís ekki beðið eftir að komast í fjallgöngur og meiri útiveru.  Í fyrra vaknaði mikill áhugi fyrir fjallgöngum og gerðum við okkar besta í að komast í göngur og prófa fjölbreytilegar gönguleiðir. Ætla að deila með ykkur nokkrum skemmtilegum gönguleiðum á og nálægt höfuðborgarsvæðinu. Læt fylgja með skemmtilegar myndir sem vð tókum síðasta sumar. Við stefnum á að fara þær allar í sumar.

 

Reykjadalur

Ein af mínum uppáhalds göngum sem við fórum í fyrra var að labba Reykjadalinn rétt hjá Hveragerði. Við fórum frekar seint og tók þetta okkur alveg 3 tíma minnir mig með stoppi innst í dalnum þar sem við böðuðum okkur í ánni. Náttúran í kring er alveg ótrúlega falleg og nutum við göngunnar, veðrið var fínt, kom smá rigning en það hafði engin áhrif. Held að þetta hafi verið um 3 km hvora leið, í heildina þá milli 6&7 km. Innst í dalnum var verið að smíða palla við ánna svo hægt væri að ganga með fram henni. Get ekki beðið eftir að endurtaka þessa göngu í sumar.

  

Reykjanesið

Þar sem að Bjarndís býr í Njarðvík og ég í Hafnarfirði fórum við í þrjár göngur á Reykjanesinun. Þorbjörn hjá Bláa Lóninu, Keilir og svo tókum við gögnu ekki svo langt frá Keili, bara um náttúruna.  Eftir gönguna rétt hjá Keili komumst við að því hvað það eru endalaust margar gönguleiðir á Reykjanesinu, náttúran er svo falleg. Núna í sumar eru við komnar með amk 2 til viðbótar á Reykjanesinu, Lambafellsgjá og Hrútagjá.  Þorbjörn er svona fullkominn þegar maður er að byrja að ganga, þetta er góð ganga en ekki of löng né brött.  Getur reyndar verið mjög hvasst en þá klæðir maður sig bara vel.  Keilir var alveg pínu challenge í fyrra. Við Bjarndís höfðum ekki farið þetta áður svo við villtumst dálítið á leiðinni og komum þar að leiðandi ekki fyrr en kringum kl.20 á staðinn. Þar tók við ganga að Keili sem er smá spölur.  Við kynntum okkur ekki hvar er best að ganga upp fjallið og fylgdum því leið sem lá upp fjallið þar sem við komum að því.  Sú leið reyndist mjög brött og efsti hlutinn var frekar erfiður.  Útsýnið á toppnum gerði þessa bröttu göngu þá algjörlega þess virði því það var dásamlegt.  Við gengum síðan aðra leið niður sem var töluvert betri.  Mæli með góðum gönguskóm þegar gengið er Keili.  Göngurnar á Reykjanesinu eru ekki bara fjallgöngur líka bara göngur á láglendi.

   

 Esjan

Esjan er það fjall sem allir þekkja og er heldur betur algengt að fólk taki smá Esjugöngu svona á sumrin.  Áður en við Bjarndís gengum Esjuna í fyrra verð ég að viðurkenna að ég hef oftar en einu sinni byrjað að labba Esjuna en gefist upp og snúið við.  Til að byrja með er þetta einn stigur frá bílastæðinu en á miðri leið skiptist göngustígurinn í tvennt. Flestir ganga upp að Steini en einnig er hægt að ganga upp á topp, sú ganga er þó töluvert brött og erfið.  Útsýnið úr Esjunni er dásamlegt, mæli með að allir gangi Esjuna.

 

Aðrar skemmtilegar göngur eru t.d. Úlfarsfell og Helgafell í Hafnarfirði, en einnig er hægt að labba kring um Hvaleyrarvatn, Vífilstaðavatn og Hafravatn svo eitthvað sé nefnt.

Að fara í göngur er frábær líkamsrækt og um að gera að bregða út af vananum á meðan veður leyfir. Vona að þetta blogg komi með skemmtilegar hugmyndir af göngum fyrir sumarið.