Um allt land eru ýmsar afþreyingar fyrir alla aldurshópa. Það eru tjaldstæði á fjöldamörgum stöðum víðsvegar um landið. Ég ætla að taka saman nokkur vinsæl tjaldstæði og afþreyingar í kringum þessi svæði.

 

Básar í Goðalandi

Áhugaverðir staðir í nágrenni: Gosstöðvar á Fimmvörðuhálsi, Eyjafjallajökull, Mýrdalsjökull, Þórsmörk. Hægt er að stoppa hjá Seljalandsfossi á leiðinni þangað eða á leiðinni tilbaka. Hér er mikið af flottum gönguleiðum fyrir fólk í þeim hugleiðingum.
Þetta tjaldsvæði er aðeins greiðfært fyrir jeppa, þar sem þarf að fara yfir nokkrar jökulár á leiðinni.

 

Flúðir

Nálægt Flúðum er fótboltagolfvöllur sem nefnist Markaland. Þar er gaman að fara með fjölskylduna og reyna við þennan skemmtilega völl. Fótboltagolf er fyrir alla. Þarna er einnig búð, matsölustaður og sundlaug. Körfubolta- og sparkvöllur eru á svæðinu. Einnig er golf-völlur þarna nálægt. Hægt að fara í Hvítá í Riverjet og síðan er Dýragarðurinn Slakki í hæfilegri fjarlægð. Stutt er einnig í Gullfoss og Geysi. Þetta er bara brotabrot af afþreyingu sem er í boði á þessu svæði.
Þetta tjaldsvæði er rúmlega 100km frá Reykjavík.

 

Hraunborgir, Grímsnesi

Á svæðinu er margt sem er hægt að finna sér til dundurs. Þar er sundlaug þar sem hægt er að sleikja alla sólina sem við fáum á Íslandi. Þar má einnig finna níu holu golfvöll sem hentar bæði fyrir byrjendur og lengra komna. Hjá þjónustumiðstöðinni er mini-golf, leiktæki fyrir börn og körfuboltaaðstaða.
Þetta tjaldsvæði leyfir hunda ef þeir eru í bandi.

Þetta tjaldsvæði er í um 70 km fjarlægð frá Reykjavík.

 

Laugaland

Þetta tjaldsvæði er algjör snilld fyrir börnin. Á þessu svæði er gervigrasvöllur og malarvöllur. Leikvellir eru á svæðinu og þar er einnig aparóla og trampolín. Á svæðinu er sundlaug með rennibraut. Útigrill er á svæðinu sem er mikill kostur fyrir fólk sem á ekki ferðagrill þá þurfa þau ekki að grilla á einnota grillum. Mikið af fallegum gönguleiðum. Einnig er hægt að leyfa börnum að fara teymandi á hestbak á hestbúgarðinum Skeiðvöllum og síðan eru þrjár hestaleigur í nágrenninu. Golfvöllur er á svæðinu.

Þetta tjaldsvæði leyfir hunda ef þeir eru í bandi.

Þetta tjaldsvæði er í um 90 km frá Reykjavík.

 

Úlfljótsvatn

Á þessu svæði er hægt að fara að veiða og er veiðigjald innifalið í verði. Einnig er hægt að leiga hjólabát um helgar. Svæðið er troðfullt af leiktækjum sem eru mjög skemmtileg. Grill eru á svæðinu.
Þetta tjaldsvæði býður upp á dagskrá um helgar á sumrin og hægt er að fylgjast með dagskránni í sumar á facebook síðu tjaldsvæðisins hér.

Á þessu tjaldsvæði eru hundar leyfðir.

Þetta tjaldsvæði er í um 50 km frá Reykjavík.

 

Þórisstaðir

Þetta er frábær staður fyrir þá sem þykir gaman að veiða. Hægt er að veiða í þremur vötnum þarna. Einnig er fótboltagolfvöllur sem þykir afbragðs fjölskylduskemmtun. Einnig er flott útivistarsvæði þarna í kring. Fótboltavöllur er á staðnum svo um að gera að taka fótboltann með. Það er einnig hægt að fara í fjórhjólaferðir og bátsferðir. Svo flestir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.

 

Hverinn, Kleppjárnsreykjum

Í kringum svæðið er sundlaug, mörgum börnum þykir virkilega gaman að fara í sund og er það hin fínasta afþreying. Hestaleiga er í nágrenninu sem er frábær skemmtun. Fyrir líkamsræktarþyrsta fólkið þá er líkamsræktaraðstaða á staðnum og ekki má gleyma 9 holu golfvellinum. Margar gönguleiðir eru í kringum tjaldsvæðið og hægt að kaupa lífrænt ræktað grænmeti á svæðinu.

Á þessu tjaldsvæði má vera með hunda.

 

Húsafell

Þetta er eitt vinsælasta tjaldsvæðið á landinu. Hérna er mikil afþreying í boði og yfir hásumarið er kveikt í varðeld á Laugardagskvöldum. Sunlaug, Golfvöllur og leiktæki eru á svæðinu. Einnig er stórt trampolín sem vekur alltaf mikla lukku. Þetta er sannkallað fjölskyldu tjaldsvæði!
Svæðið leyfir hunda sem eru í bandi.

 

Hamrar við Kjarnaskóg

Frábært tjaldsvæði á norðurlandi. Stutt er í alla þjónustu og afþreyingu á Akureyri en tjaldsvæðið samt staðsett aðeins fyrir utan. Mikið af flottum gönguleiðum í kringum svæðið. Bátaleiga er á svæðinu og leiktæki fyrir börnin. Svæðið er lokað af sem er mikill kostur. Þetta er stórt og mikið tjaldsvæði þannig yfirleitt hægt að finna sér góðann stað til að vera á.

Þetta eru svona helstu tjaldsvæðin sem mér datt í hug. Þessi tjaldsvæði eru mest skoðuðu tjaldsvæðin inn á heimasíðu tjalsvæðanna. Síðan eru tjaldsvæði í mjög mörgum bæjarfélögum út á landi og er því um að gera að kynna sér tjaldsvæðin sem eru í boði ef ferðalag er á planinu.

Upplýsingarnar í blogginu eru fengnar af heimasíðunni tjalda.is. Þar eru upplýsingar um öll tjaldsvæði á landinu og afþreyingu þar í kring. Þessa síðu er t.d hægt að skoða ef maður er að skipuleggja hringferð, hvar er hægt að gista og hvaða afþreying er í boði, bæði fyrir fullorðna og börn.

 

Góða ferð og fari þið varlega.