Ég, eins og svo margir Íslendingar, er mikill aðdáandi tekk húsgagna. Tekk viðurinn er nánast uppurinn í heiminum og því er hagkvæmastaleiðin til að koma höndum sínum yfir tekk húsgögn að kaupa þau notuð. Ég var svo einstaklega heppin, að í einum Góða hirðis rúntinum mínum (já ef ég á lausar 20 mínútur er mjög algengt að þeim sé eitt með einum rúnti í gegnum þann Góða) rakst ég á þessa gullfallegu gersemd sem er á myndinni hér að ofan. En svona gullfalleg var hún reyndar ekki, nei svona leit gripurinn út:

2015-03-27-17-22-34 2015-03-27-23-33-37 2015-03-27-23-33-47

Ekki var hann mjög fallegur en galdurinn við að gera góð kaup á nytjamörkuðum er að sjá hvað hluturinn getur orðið. Hér fann ég þessa fínu mublu með innbyggðu útvarpi og plötuspilara sem hentaði fullkomlega undir sjónvarpið hjá mér. Palla fannst ég ekki hafa gert nein svaka kaup þegar ég sýndi honum að þessa dýrindis mublu sem ég hafði keypt á 7500 kr.

Ég kom við í BYKO á leiðinni heim og keypti sandpappír, tekkolíu og vax og hófst síðan handa. Ég byrjaði á að þrífa gripinn og í það notaði ég edikblönduna góðu, næst tók við að pússa, pússa og pússa (passaði mig bara á því að fara ekki í gegnum spónin).  Síðan bar ég nokkrar umferðir af tekkolíu á gripinn, en mikilvægt er að bera þunnt lag og fara frekar fleiri umferðir, síðan var umfram olía þurrkuð af og vaxið borið yfir til að vernda viðinn.

En ég var ekki hætt þarna, næst fékk ég Palla til að fikta í raftækjunum og tókst honum að koma fyrir betri hátölurum, magnara og öllum þeim tækjum og tólum sem tengjast sjónvarpinu fyrir í skenknum og líta herlegheitin svona út í dag:

2016-11-04-18-16-39

Þarna fékk ég ekki bara fallega tekk mublu heldur er ég laus við (næstum) allar snúrur og ljót raftæki úr stofunni og tóku þessar framkvæmdir ekki nema eina helgi.

1-undirskrift