Eitt af því sem hefur tilheyrt fermingum um lengri tíma er fermingarmyndatakan og það er að mörgu að huga þegar kemur að henni. Í fyrsta lagi þarf að finna rétta ljósmyndarann, persónulega mæli ég með að skoða vel heimasíður ljósmyndara því ljósmyndarar hafa mismunandi stíl. Þegar búið er að finna rétta ljósmyndarann fyrir þig þá er um að gera að huga að því hvernig myndatöku þú vilt, því það eru nokkrar leiðir í boði og hægt að blanda þeim saman. Hér að neðan koma nokkrar tegundir og samansafn af ljósmyndum sem heilla mig.

Stúdíómyndataka

Stúdíómyndatakan er alltaf klassísk og fyrsta val hjá mörgum. Oft eru ljósmyndarar með nokkra liti af bakgrunni til að velja úr og eru með eitthvað af fylgihlutum á staðnum, svo sem stóla sem hægt er að nýta sér. Góði hlutinn við að velja stúdíómyndatöku er að þú ert ekki háð veðurfari og ljósmyndarinn er búinn að stúdera lýsinguna í rýminu vel til að fá sem bestu útkomuna.

  

Útimyndataka

Útimyndatökur eru uppáhaldið mitt þessa dagana og færist í aukana í fermingarmyndatökum. Náttúrulegt ljós kemur svo vel út á myndum og ekki spillir fyrir ef hið fullkoma umhverfi finnst. Dæmi um slíkar staðsetningar eru Hellisgerði í hafnarfirði, Elliðaárdalurinn í Reykjavík og svo er vinsælt að taka myndir í gluggunum í Hörpunni. Þegar taka á myndir úti er eins gott að krossa fingur og vona að veðrið sé gott.

 

Myndataka með áhugamálunum

Ef fermingarbarnið hefur sérstakan áhuga á einhverju er um að gera að reyna að taka myndir af því, þær verða oft skemmtilegar minningar og lýsandi fyrir persónuna.

 

Myndataka með fjölskyldunni

Þótt fermingarbarnið sé að sjálfsögðu í forgrunni við þetta tilefni er alltaf skemmtilegt að smella nokkrum myndum af fjölskyldunni í leiðinni.

Leikur

Fermingarmyndatökum tilheyra nokkrar uppstilltar myndir í kirtli og með sálmabók í hönd, en óuppstilltar myndir finnst mér langfallegastar og best ef hægt er að taka mynd af fermingarbarninu að skemmta sér við eitthvað eða nokkrir að skemmta sér saman.

 

Vonandi geta einhverjir nýtt sér þessar hugmyndir.