Fermingar geta kostað sinn skildinginn, þó er misjafnt hvað þær kosta eftir því hversu fjölmennar veislurnar eru og hversu mikið er lagt í þær. Oft er hægt að aðlaga þær að fjármálum hvers og eins upp að vissu marki en sumir kostnaðarliðir eru nokkuð ósveigjanlegir, s.s. fermingarfræðsla og gjald fyrir ferminguna sjálfa. Sumir kjósa að leyfa fermingarbarninu sjálfu að ákveða hvort fermingarveisla verður haldin eða hvort peningurinn verður nýttur í eitthvað annað, eins og utanlandsferð.

Oft vilja hlutirnir flækjast enn frekar þegar foreldrar fermingarbarnsins eru ekki lengur saman og erfitt getur reynst að komast að samkomulagi um hvernig eigi að skipta kostnaðinum á milli foreldranna. Hér að neðan koma nokkrar hugmyndir um leiðir til að spara og leiðir til að skipta upp kostnaði.

Sparnaðarleiðir

Fatnaður og útlit fermingarbarnsins

Fermingum fylgir oftast nýr klæðnaður fyrir fermingarbarnið og jafnvel fyrir foreldri og systkini fermingarbarnsins. Ýmsar leiðir eru til að spara á þessum liðum t.d. með því að versla í ódýrari verslunum landsins, panta klæðnaðinn á netinu eða jafnvel kaupa notaðan klæðnað eða fá lánaðan. Á fermingardaginn minn klæddist ég t.d. kjól sem hafði verið notaður af öðru fermingarbarni árið áður, kjóllinn var samt nýr fyrir mér.

Eitt sparnaðarráð er að athuga hvort einhver vinur eða ættingi geti tekið að sér að sjá um hár fermingarbarnsins og förðun. Sumar stelpur fá sér gelneglur og fara í brúnkumeðferð fyrir fermingardaginn en hægt er að kaupa tilbúnar gervineglur og brúnkukrem og bera á heima fyrir til að spara nokkra aura.

Veislan

Salurinn og veitingar eru oftast stærsti kostnaðarliðurinn á fermingardaginn og eru nokkrar leiðir í boði til að spara á þessu sviði, t.d. að halda veislunni í heimahúsi og/eða halda gestafjöldanum í lágmarki. Ef heimili fermingarbarnsins er nógu stórt er hægt að halda veisluna heima fyrir, einnig eru dæmi um að veislan sé haldin hjá ömmu og afa fermingarbarnsins ef það húsnæði hentar betur. Sum fjölbýlishús hafa sal á neðstu hæð sem íbúar geta fengið lánaðan eða leigðan fyrir slík tilefni og er um að gera að horfa í kringum sig og athuga hvort einhver nákominn búi í slíku húsi.

Hægt er að fara ýmsar leiðir í veitingum og eru þær misdýrar, oft eru kökuboð ódýrari kostur en heitar máltíðir ef kökurnar eru bakaðar heima og stundum eru vinir og ættingjar til í að hjálpa til með því að leggja til heimabakstur fyrir veisluna. Einnig er hægt að bjóða upp á ódýrari heita rétti eins og kjötkássu eða matarmikla súpu. Þá er hægt að stökkva á tilboð í matarverslunum þegar þau eru í boði og versla snemma og geyma í frystinum þar til rétturinn verður eldaður. Svo eru verslanir eins og Stórkaup mjög hentugar þegar kaupa þarf mat í miklu magni.

Athöfnin

Flest fermingarbörn halda á sálmabók í athöfninni en hægt er að notast við lánsbók, t.d. frá foreldrum fermingarbarnsins eða nánum ættingjum, það sama á við um hanskana.

Skreytingar

Hægt er að nýta sér erlendar vefverslanir til að versla inn skreytingar ef það er gert nógu tímanlega, því oft tekur mjög langan tíma að fá vörurnar í hendurnar. En einnig er hægt að samnýta skreytingar í fleiri en einni veislu, t.d. ef góður vinur/vinkona fermingarbarnsins er að fermast á öðrum degi.

Ljósmyndun

Flest fermingarbörn fara í myndatöku af þessu tilefni og eigum við flest mis-lummulegar myndir af okkur á vandræðalegasta tímabili lífs okkar. Persónulega finnst mér mjög mikilvægt að eiga góðar ljósmyndir frá þessu tímabili og til að tryggja gæðin er best að fara til atvinnuljósmyndara. En myndatökur eru ekki ódýrar og stundum er hægt að finna áhugaljósmyndara sem tekur minna fyrir verkið, sumir eru heppnir og eiga góða að sem finnst gaman að munda myndavélina og enn aðrir þekkja einhvern sem á gæðamyndavél sem hægt er að fá lánaða til að taka fermingarmyndirnar af barninu.

 

Skipting kostnaðar

Þegar foreldrar fermingarbarna eru fráskilin getur verið flókið að skipta kostnaðinum upp, í draumaheimi tækju foreldrar að sjálfsögðu þátt til jafns en það er ekki alltaf raunin. Stundum vill annað foreldrið hafa veisluna íburðarmeiri en hitt foreldrið og stundum er gestafjöldi frá hvoru foreldrinu mismikill, þó færa megi rök fyrir því að allir gestir veislunnar séu gestir fermingarbarnsins en ekki foreldranna.

Innanríkisráðuneytið gefur árlega út leiðbeiningar með viðmiðunarfjárhæðum vegna krafna um sérstök framlög, þ.á.m. vegna ferminga. Fyrir árið 2017 er sú upphæð ákveðin kr. 72.000-95.000 vegna ferminga. Skv. heimasíðu sýslumanna skal aðili sem óskar úrskurðar sýslumanns um sérstakt framlag v. ferminga láta frumrit reikninga fylgja beiðninni og leggja inn kröfunna innan þriggja mánaða frá fermingardeginum, sjá betur hér.

Dæmi eru um að foreldrar ákveði að skipta kostnaði við veitingar í hlutfalli við gestafjölda hvorrar fjölskyldu og öðrum kostnaði jafnt á báða foreldra, en fjölskyldur eru eins fjölbreyttar og þær eru margar og er hægt að fara ýmsar leiðir við skiptingu kostnaðarins, en númer eitt, tvö og þrjú í þeim efnum er að barnið á aldrei að upplifa að foreldrarnir séu að rífast um peninga!

Fjárhagsáætlun

Ef ætlunin er að reyna að halda vel utan um kostnað, hvort heldur sem er til að forgangsraða fjármunum eða halda utan um heildarkostnað til að auðvelda skiptingu hans er gott að gera það með skipulögðum hætti. Hér fyrir neðan er grunnur að fjárhagsáætlun fyrir fermingar þar sem helstu kostnaðarliðir eru upptaldir, hægt er að nálgast það bæði í excel og pdf formi.

Fjárhagsáætlun ferminga excel útgáfa

Fjárhagsáætlun ferminga pdf útgáfa