Mynd tekin í skiptinemaferð

Á síðustu vikum hef ég verið að lesa margar sögur um það hvernig fólk upplifir skiptinemaárið sitt, bæði vondar og góðar reynslusögur.  Í framhaldi af því langar mig að deila með ykkur mínu skiptinemaári í Kína.
Það má segja að fjöskyldan mín sé hálfgerð skiptinema fjölskylda. Mamma mín fór sem skiptinemi til Brasilíu, systir hennar til Indónesíu og síðan hafa amma og afi tekið á móti skiptinemum frá Mexíkó, Austurríki og Taílandi og að fara sem skiptinemi heillaði mig því alltaf.  Þegar kom að því að velja land langaði mig að fara einhvert þar sem menning er sem mest frábrugðin íslenskri menningu.  Ég skilaði inn umsókn í október og lét mig dreyma um að fara út strax í febrúar og þá til Japans, en þar sem að fyrirvarinn þótti frekar stuttur varð ég að velja annað land og fara um haustið.  Þá varð Kína fyrir valinu.

Í viðtalið við sjónvarpsstöð hjá borginni

11.september 2008 hélt ég af stað til Kína alein, ferðalagið tók um 16 tíma í heildina.  Bara að ferðast ein til Kína með millilendingu í London var stórt skref fyrir 17 ára gömlu mig.  Ég lenti í Kína föstudaginn 12.september og við tók helgi í Shanghai með öllum skiptinemunum.  Að helginni lokinni héldu síðan allir til sinna fjölskyldna.  Borgin sem ég bjó í heitir Wuhu en þar bjuggu á þessum tíma um 2 milljónir manna.

Þessi mynd er tekin á einum að ferðalögum mínum í Kína

Fyrstu vikurnar voru svakalega erfiðar, menningarsjokkið er svo rosalega mikið.  Ég gleymi aldrei fyrsta kvöldinu mínu hjá fjölskyldunni minni.  Við fórum í mat hjá eldri bróður kínverska pabba míns, en þar voru báðir bræður pabba míns og fjölskyldur, ásamt mömmu þeirra.  Ég  hafði troðið í mig einhverri tunglköku sem mér hafði verið boðið og hafði því litla sem enga matarlyst þegar kom að kvöldmatnum.  Eftir að hafa verið þarna í einhvern tíma bað ég systkini mín að fylgja mér heim, en um leið og við komum heim fór ég inn í herbergi og hringdi í mömmu hágrátandi og vildi koma heim aftur.  Í dag þegar ég hugsa til baka til þessa kvölds get ég ekki annað en brosað, þetta kvöld sýnir menningarsjokkið fullkomlega.

Ein af mínum betri vinkonum þarna úti Wang Hui

Ég og aðrir skiptinemar

Þegar ég loks komst yfir þetta sjokk og heimþránna fór ég að njóta mín og gerði til síðasta dags en þá vildi ég helst ekkert fara heim strax því þetta ár var algjört ævintýri.
Ég og danskur skiptinemi sem var í sömu borg mættum í skólann alla virka daga.  Fyrir hádegi sátum við kennslustundir með bekkjunum okkar, en bekkurinn minn samanstóð af 72 nemendum.  Kennslustofan var ekki stór og sátu tveir nemendur saman við eitt borð/bekk.  Ég skildi nú ekki mikið í þeim tímum nema þá kannski í ensku.  Eftir hádegi voru aftur á móti sér tímar fyrir mig og danska strákinn.  Þar lærðum við kínversku, tónlist (söngur á kínversku) , taiji (sem er svona hæg bardagalist), list (mála og skrifa tákn með bursta) og íþróttir.  Ég hafði miklu meira gaman af tímunum eftir hádegi því þá skildi ég allt sem var í gangi og fannst gaman að læra það sem var kennt þá.  Annars fannst mér gaman að fara í íþróttir með bekknum mínum einu sinni í viku (fyrir hádegi) en þá spilaði ég fótbolta með strákunum því stelpurnar spiluðu ekki fótbolta.  Einnig tók ég þátt í fullt af viðburðum innan skólans eins og t.d. fótboltamóti milli bekkja, íþróttadegi skólans þar sem keppt var í frjálsum íþróttum og danskeppni skólans, en þar dansaði ég ásamt fleiri stelpum í bekknum mínum kínverskan dans með blævæng.
Ég gerði svo margt skemmtilegt á þessu tæpa ári sem ég var þarna úti, ferðaðist á hina ýmsu staði í Kína, smakkaði ótrúlega fjölbreyttan asískan mat og eignaðist dásamlega fjölskyldu og vini.

Systir mín lengst til vinstri og síðan 3 af góðum vinkonum

 

Eins og ég sagði áðan var ég mjög heppin með fjölskyldu, en hún samanstóð af mömmu og pabba, systur sem var ári yngri en ég og bróður fjórum árum yngri.  Mamma mín var heimavinnandi og hugsaði vel um heimilið og okkur systkinin.  Við urðum mjög góðar vinkonur en á laugardögum fóru systkini mín í skólann til hádegis og eyddi ég morgnunum í að þvo þvott og aðstoða mömmu við að taka til og elda hádegismat.  Þær stundir hjálpuðu einnig mikið til þegar kom að því að læra kínversku því foreldrar mínir töluðu enga ensku og varð ég að láta reyna á kínverskuna á þeim tímum.

Fjölskyldan mín keypti jólatré

Systkini mín og frændsystkini með ömmu og afa

Öll föðurfjölskyldan

Ég eignaðist fullt af vinum, bæði kínverskum og öðrum skiptinemum allsstaðar að og er í sambandi við fullt af þeim enn í dag gegnum Facebook.  Auk þess sem ég heyri reglulega í systur minni en hún er núna búsett í Bandaríkjunum og er það draumur hjá okkur báðum að hún komi í heimsókn til Íslands.
Eins og ég sagði frá var þetta ár mjög erfitt þegar kom að tilfinningarhliðinni en það hjálpaði mikið hversu heppin ég var með fjölskyldu og vini, bæði úti í Kína og héra heima.  Í dag er ég mömmu t.d. mjög þakklát fyrir að segja mér að gefa þessu nú séns og vera opnari fyrir þessari nýju menningu þarna fyrstu kvöldin sem ég hringdi í hana.  Þetta ár var án efa með þeim minningaríkustu og dýrmætustu árum sem ég hef upplifað.  Læt myndir fylgja til gamans og hvet ævintýragjarnt fólk að skoða þann möguleika að fara sem skiptinemar.

Fallegur hattur

Ég og danski skiptineminn með íþróttakennnaranum okkar

Í heimabæ WangHui vinkonu minnar

Í 4506 m hæð í skiptinemaferð

Frábært útsýni úr sömu ferð

Ég og systir mín

Frábæra fjölskyldan mín

Ég og skiptinemi frá Brasilíu

Ég og vinkona mín frá Færeyjum

Allir skiptinemar í mínu fylki ásamt kennurnum

Frábærir skiptinemar í einni af ferðum okkar 🙂

Takk fyrir mig

Helena